Dagur 11/12

Ég verð að biðjast velvirðingar á því að hafa ekki skrifað neitt í dagbókina í gær, en það kom til af því að á hótelinu sem við vorum á í Amorillo var afskaplega léleg nettenging. Það var líka skrítið að í New Mexico vorum við nokkurnvegin sambandslaus þar sem illa gekk að komast í GSM samband.
En nú erum við komin til Oklahoma. Við ókum af stað í töluverðum kulda og höfðu allir lært af gærdeginum og klæddu núna af sér kuldann. Það var skemmtilega óvænt þegar við komum að þessum líka svaka stóra krossi, þar sem við stoppuðum og ég held að ég tali fyrir munn allra að þetta var "ein frábær kirkjuferð", þar sem boðskapurinn var píslarsaga Krists og lífið.
Ferðin gekk síðan upp og niður og eiginlega í fyrsta skipti í ferðinni er hægt að segja að eitthvað hafi ekki alveg verið að virka, en trúlega má rekja það til samskiptaleysis en enginn slasaðist og málin voru rædd og leyst þannig að við erum bjartsýn á framhaldið og spennt yfir því sem framundan er. Nú fer að draga að því að við klárum þann hluta ferðarinnar sem tengist Route 66 en það mun gerast þegar við komum til Tulsa, á morgun.
Stundirnar okkar á kvöldin þar sem við höfum lesið saman Postulasöguna hafa verið frábærar og höfum við getað sungið, beðið og spjallað saman. Það er komin svolítil þreyta í suma sem kemur trúlega af því að það er farið snemma á fætur, mikið keyrt og ekki mikill tími til að hvíla sig. Þetta er nú einu sinni svona.  Það bætir allt að við fáum að teyga í okkur allt það sem fyrir augu ber. Þetta er hreint frábært því það er alltaf eitthvað nýtt að sjá sem við höfum reynt að koma til skila á myndunum sem settar hafa verið inn í myndaalbúmið.
Gaman hefur verið að sjá hversu margir eru að fylgjast með ferðinni okkar og svo hefur verið gaman að sjá athugasemdirnar sem settar hafa verið við sumar myndirnar og hefur félagi og vinur okkar Hafliði Guðjónsson verið duglegur við það og hafi hann sérstakar þakkir fyrir, ég man ekki hvernær ég hló eins mikið eins og núna þegar ég var að skoða athugasemdirnar hans. Meira af þessu takk.
Ég kveð hér í bili og bið ykkur blessunar Drottins.


Flettingar í dag: 138
Gestir í dag: 43
Flettingar í gær: 422
Gestir í gær: 94
Samtals flettingar: 1942752
Samtals gestir: 192415
Tölur uppfærðar: 15.6.2021 06:20:28